Alonso fór að efast

Fernando Alonso.
Fernando Alonso. mbl.is/afp

Fernando Alonso segist hafa farið að efast í fyrrasumar um réttmæti þess að festa sig til frambúðar hjá Ferrari.

Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Abu Dhabi en þar var loks staðfest í gær, sem lengi hefur þó legið fyrir, að hann væri á förum frá Ferrari við vertíðarlok á sunnudag.

Alonso sagði að samkomulag hefði tekist með honum og forsvarsmönnum Ferrari í septembermánuði að leiðir myndu skilja að keppnistíðinni lokinni. Og var þá rúmt ár liðið frá því að efasemdir byrjuðu að sækja á hann.

„Það var ekki neitt sérstakt augnablik sem tengja má það að augun opnuðust. Ég hafði þegar í fyrra efasemdir um 2014-vertíðina. Fyrir lá að miklar breytingar yrðu á vélunum svo niðurstaðan var að bíða og sjá hvernig túrbótímarnir nýju myndu ganga hjá Ferrari.

Samband okkar [Luca] Di Montezemolo [fyrrverandi Ferraristjóra] var náið, við töluðumst við í viku hverri og við urðum meira og minna sammála um að ég gæti velt fyrir mér öðrum kostum reyndust bílarnir í ár ekki samkeppnisfærir.

Og þegar kom að keppnishléinu í sumar fannst mér tími til kominn að setjast niður með honum og tjá honum - ef það væri í lagi af liðsins hálfu - að ég hyrfi úr herbúðum Ferrari. Ég er afar þakklátur liðinu fyrir þann skilning sem það sýndi mér, sem endurspeglar ást og virðingu beggja. Þeir hefðu auðveldlega geta sagt nei.

Mér finnst ég þurfi að elska það sem ég aðhefst og í september fannst mér það ekki vera raunin. Eftir það fór ég að skoða aðra kosti,“ sagði Alonso.

Allar líkur þykja á að Alonso sé á förum til McLarenliðsins. Á blaðamannafundinum í Abu Dhabi sagðist hann þó ekkert hafa undirritað vegna næsta eða næstu ára.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert