Rosberg vann fyrsta sálfræðistríðið

Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg takast í hendur eftir …
Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg takast í hendur eftir tímatökuna í Abu Dhabi. mbl.is/afp

Nico Rosberg var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Abu Dhabi og hafði hann undirtökin gegn liðsfélaga sínum, Lewis Hamilton, þegar mest á reyndi. Þriðji varð Valtteri Bottas hjá Williams.

Hamilton var ögn á undan Rosberg í fyrstu tveimur lotunum en þegar mest á reið setti Rosberg bestu brautartíma í þriðju lotunni, og það tvisvar, og hafði Hamilton engan veginn við honum þar. Spennan í viðureign þeirra jókst jafnt og þétt og var í hámarki er Hamilton  kláraði seinni tímatilraun sína. 

Uppi stóð Rosberg sem sigurvegari í fyrstu lotu sálfræðistríðs þeirra í Abu Dhabi. Á morgun verða taugar þeirra þandar til hins ýtrasta í byrjun keppni og fróðlegt verður að sjá hvort Bottas blandar sér í rimmu þeirra.

Fari svo að Rosberg sjái köflótta flaggið fyrstur á morgun dugar Hamilton að halda öðru sæti til að verða krýndur heimsmeistari ökumanna þar sem hann er með 17 stiga forskot á Rosberg í þeim slag.    

Naumt á undan Bottas og Massa

Um tíma leit út fyrir að Mercedesmennirnir þyrftu að hafa áhyggjur af ökumönnum Williams sem minnkuðu forskot Rosberg og Hamiltons með hverri lotu sem leið. Munaði aðeins fjórum þúsundustu úr sekúndu á honum og Hamilton fyrir hinstu tilraun þess síðarnefnda. Má segja, að á endanum hafi Hamilton naumlega sigrast á þeim Bottas og Felipe Massa, sem hefja keppni á morgun af þriðja og fjórða rásstað.

Í fimmta sæti varð Daniel Ricciardo hjá Red Bull og liðsfélagi hans Sebastian Vettel sjötti. Rússneski nýliðinn Daniil Kvyat hjá Toro Rosso varð sjöundi og Jenson Button hjá McLaren áttundi. Síðustu tvö sætin í lokalotunni skipuðu svo Ferrarifélagarnir Kimi Räikkönen og Fernando Alonso og hefja þeir því keppni í níunda og tíunda sæti. 

Rosberg var öryggið uppmálað í lokalotunni og fór ekki á …
Rosberg var öryggið uppmálað í lokalotunni og fór ekki á tauginni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert