Lewis Hamilton heimsmeistari

Lewis Hamilton var í þessu að vinna öruggan sigur í kappakstrinum í Abu Dhabi. Með því varð hann heimsmeistari í formúlu-1 og það með miklum glæsibrag. Liðsfélagi hans Nico Rosberg hjá Mercedes glímdi við hverja bilunina á fætur annarri og lauk keppni í 13. sæti.

Ófarir Rosberg byrjuðu á rásmarkinu því vart var skotið riðið af er Hamilton hafði skotist af öðrum rásstað og fram úr. Tóku síðan bilanir að hrjá Rosberg sem ók aflvana seinni helming kappakstursins og seig smám saman niður á við í bílaröðinni. Nokkrum hringjum frá endamarki var hann beðinn að keyra heim í bílskúr og hætta því of margt og of mikið væri að Mercedesbílnum. „Ég vil aka alla leið,“ svaraði Rosberg í talstöðina og fékk strax leyfi liðsstjóranna til þess.

Hamilton ók óaðfinnanlega og gallalaust á leið til síns annars titils. Hann varð einnig meistari ökumanna á öðru keppnisári sínu, 2008, en þá ók hann fyrir McLaren. Um tíma leit út fyrir að hann yrði að sætta sig við annað sætið í mark í mikilli keppni við Felipe Massa hjá Williams.

Massa var lengi í forystu á seinni helmingi kappakstursins og stefndi til sigurs í fyrsta sinn frá brasilíska kappakstrinum 2008. Átti hann hins vegar eftir að stoppa til dekkjaskipta 10 hringjum frá endamarki. Og þótt hann drægi ört á Hamilton það sem eftir var dugði það ekki til efsta þrepsins á verðlaunapallinum; segja má að það hafi verið frátekið fyrir Hamilton í dag.

Árangurinn er engu að síður sá besti hjá Massa á árinu og þriðji varð liðsfélagi hans hjá Williams, Valtteri Bottas. Skaust Bottas þar með fram úr Sebastian Vettel og Fernando Alonso í keppninni um titil ökuþóra og varð fjórði. Um leið gulltrygði Williams sér þriðja sætið í keppni bílsmiða sem eru mikil viðbrigði frá í fyrra er liðið var í botnbaráttu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert