Vill ekki númer 1

Lewis Hamilton kemur heim til Bretlands í gær, daginn eftir …
Lewis Hamilton kemur heim til Bretlands í gær, daginn eftir að hafa landað titili ökumanna í Abu Dhabi. mbl.is/afp

Lewis Hamilton vill ekki bera tölustafinn 1 á trjónu keppnisbíls síns á næsta ári eins og  hann hefur rétt til sem heimsmeistari ökumanna í formúlu-1.

Hamilton kveðst heldur ætla að halda sínu númeri sem hann brúkaði í ár, 44, ef nokkur kostur er.

Fyrir keppnistíðina í ár var tekið upp það fyrirkomulag að ökumenn gátu valið sín eigin númer á bílana en áður voru þeir númerið út frá röð liða í stigakeppni bílsmiða. Gátu þeir valið milli númeranna 2 og 99 til að bera það sem eftir væri keppnisferils þeirra.

Hamilton valdi sér númer 44 og er það meira að segja rist í húðina fyrir aftan hægra eyra. „44 er númerið mitt. Ég vann minn fyrsta titil með 44 á körtunni minni á sínum tíma og ég mun biðja liðið um að fá að halda því áfram. Mig skiptir talan 1 engu,“ sagði Hamilton.

Númer 1 var frátekið fyrir ríkjandi heimsmeistara og bar Sebastian Vettel það á sínum bíl í ár. Hans persónulega númer er hins vegar talan 5 og mun hún prýða Ferrari-fák hans á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert