Taka upp „sýndaröryggisbíl“

Sebastian Vettel ekur framhjá skilti sem gefur til kynna að …
Sebastian Vettel ekur framhjá skilti sem gefur til kynna að sýndaröryggisbíll sé á ferð í Sao Paulo í Brasilíu.

Ákveðið hefur verið að stíga skrefið til fulls og taka svonefndan „sýndaröryggisbíl“ á komandi keppnistíð.

Hugmynd að slíku fyrirkomulagi vaknaði eftir hið alvarlega slys í japanska kappakstrinum þegar franski ökumaðurinn Jules Bianchi stórslasaðist. Tilgangurinn með sýndaröryggisbíl (VSC) er að hægja á ökumönnum sjálfkrafa frá stjórnborði keppninnar á brautarkafla þar sem slys hefur átt sér stað.

Gerðar voru tilraunir með VSC-rafeindabúnað á föstudagsæfingum síðustu þriggja móta nýliðinnar keppnistíðar. Þóttu þær það árangursríkar að ákveðið hefur verið að taka þetta kerfi upp.

Í breyttum tæknireglum formúlunnar segir nú, að sýndaröryggisbíllinn yrði brúkaður þar sem tvöföldum gulum flöggum væri veifað vegna óhapps sem ekki kallaði á að öryggisbíll yrði sendur út í brautina.

Þegar gripið er inn í keppnina með sýndaröryggisbíl munu stafirnir VSC birtast á skjám á stöðvum brautarvarða. Hefur það í för með sér að ökumenn verða að hægja ferðina niður fyrir tiltekinn hraða að minnsta kosti einu sinni á hverjum brautarkafla.

Með sýndaröryggisbílinn í gangi mega ökumenn ekki fara inn að bílskúrum sínum nema í þeim tilgangi einum að skipta um dekk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert