Ferrari frumsýnir SF15-T

Ferrari frumsýndi keppnisbíl sinn ánetinu í dag en hann hefur hlotið heitið SF15-T. Ökumenn hans í ár verða Kimi Räikkönen og SebastianVettel, tveir fyrrverandi heimsmeistarar í formúlu-1.

Aðalhönnuður SF15-T er James Allison og er hann fyrsta nýja afurð liðsins frá því það gekkst undir meiriháttar uppstokkun á síðasta ári í kjölfar þess að verða aðeins í fjórða sæti í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

Vettel mun frumaka bílnum í Jerez á Spáni á sunnudag og einnig verða undir stýri við æfingar á mánudeginum, en Räikkönen keyrir síðustu tvo dagana, þriðjudag og miðvikudag.

Í samræmi við nýjar tæknireglur er trjóna bílsins talsvert breytt frá í fyrra og í þeim tilgangi að auka loftafl bílsins hefur yfirbyggingin á afturendanum verið sniðin þéttar og þrengra en í fyrra. Loks hafa kælitrektar bremsubúnaðar aftan og framan tekið áberandi breytingum.

Talsmenn Ferrari sögðu í dag, að áhersla hefði verið lögð á að bæta kæligetu vélarinnar í þeim tilgangi að auka kraft hennar og bæta vængpressu bílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert