Massa fljótastur

Felipe Massa á Williamsbílnum í Barcelona í dag.
Felipe Massa á Williamsbílnum í Barcelona í dag. mbl.is/afp

Felipe Massa hjá Williams ók langhraðast á fyrsta degi lokalotu bílprófana vetrarins í Barcelona í dag. Var hann 0,7 sekúndum fljótari með hringinn en næsti maður.

Næstbesta tímann átti Marcus Ericsson hjá Sauber en báðir voru þeir Massa með mjúku dekkin undir er þeir náðu sínum bestu hringjum. Þeir voru þeir einu sem óku meira en hundrað hringi; Massa 103 og Ericsson 122 eða tæplega tvöfalda keppnislengd. 

Skúrir hrelltu ökumenn um hádegisbil en brautin þornaði er á leið. Tími Massa er sá besti í brautinni í vetur og rúmlega hálfri sekúndu betri en sá fyrri, sem Romain Grosjean hjá Lotus átti frá fyrri æfingalotu.

Lewis Hamilton varð þriðji og rúmlega 1,3 sekúndum lengur með hringinn en Massa. Besta tíma sinn setti hann á harðari dekkjagerðinni. Gat Hamilton aðeins ekið fram að hádegi, bíllinn stóð inni í bílskúr það sem eftir var dagsins vegna bilunar í aflrásinni.

Daniil Kvyat hjá Red Bull átti fjórða besta hringinn en var rúmlega sekúndu lengur með hann en Hamilton, ók á 1:25,947 miðað við 1:23,500 hjá Massa. 

Þar á eftir komu Grosjean og Kimi Räikkönen með 1:26,177 og 1:26,327 sem bestu hringi. Nýliðinn Carlos Sainz hjá Toro Rosso átti sjöunda besta hringinn á 1:26,962. Bíl hans hafði verið breytt mjög frá reynsluaksturslotu síðustu viku, fengið nýtt nef, umbreytta yfirbyggingu, nýja fjöðrun og nýjar kælitrektir.

McLaren hafði vonast til að geta bætt sér glataðan tíma frá fyrri prófanalotum en það fór á annan veg. Jenson Button náði aðeins sjö hringjum allan daginn. Bilun í vökvakerfi var ástæða þess en hún varð meðal annars til þess að skipta varð um hluti í aflrásinni.

Force India ók ekki í dag, bíður enn eftir 2015-bílnum sem smíði virðist ekki lokið á. Vonast var til að hægt yrði að keyra hann síðdegis á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert