Rosberg skýtur viðvörunarskotum

Nico Rosberg á ferð við reynsluakstur í Barcelona.
Nico Rosberg á ferð við reynsluakstur í Barcelona. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes sendi öflug viðvörunarskot frá sér er hann ók á langbesta brautartíma vetrarins við bílprófanir í Barcelona, þegar aðeins eru tveir dagar eftir af þróunarakstri liðanna fyrir komandi keppnistímabil.

Eftir að hafa ekið lengst af á hörðum dekkjum skellti Rosberg mjúku dekkjunum undir Mercedesbílinn og ók hringinn á 1:22,729 mín. Var hann rúmlega sekúndu fljótari með hringinn en Valtteri Bottas náði á sömu dekkjagerð fyrr um daginn, en hann ók á 1:23,995 mín.

Aukinheldur var brautartími Rosberg 2,4 sekúndum betri en ráspólstími Lewis Hamilton í Spánarkappakstrinum í Barcelona í fyrra. Er það vísbending um hversu öflugri keppnisbílarnir í ár eru miðað við í fyrra.

Felipe Nasr hjá Sauber átti þriðja besta hringinn, 1:24,071 mín., sem hann setti rétt fyrir hádegi. Síðdegis líkti hann eftir kappakstri.

Sebastian Vettel hjá Ferrari náði best 1:25,339 mín., en hann ók manna mest, eða 143 hring og átti vandræðalausan dag. Rétt á eftir honum varð svo Jenson Button hjá McLaren sem ók best á 1:25,590 mín., en það sem var mest um vert var að hann kláraði 101 hring, sem er meira en McLarenbílnum hafði verið ekið þangað til. Gat Button þó ekki ekið alla æfinguna því bilun varð til þess að leggja varð bílnum við brautarkant er hálf klukkustund var eftir.

Keppnisbíll Force India fyrir komandi vertíð birtist loks á æfingabraut og eftir 77 hringi var Nico Hülkenberg í níunda og neðsta sæti á lista yfir hröðustu hringi með 1:28,412 mín. 

Nico Rosberg leggur af stað í aksturslotu á Mercedesbílnum í …
Nico Rosberg leggur af stað í aksturslotu á Mercedesbílnum í Barcelona í dag. mbl.is/epa
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert