Alonso ekki með í Melbourne

Fernando Alonso.
Fernando Alonso. mbl.is/afp

McLarenliðið hefur staðfest, að Fernando Alonso muni sitja af sér kappaksturinn í Melbourne vegna óhappsins við bílprófanir í Barcelona fyrra sunnudag. Keppir Kevin Magnussen í hans stað.

Alonso hlaut heilahristing er hann skall á öryggisvegg og dvaldi á sjúkrahúsi á fjórða sólarhring í framhaldi af því.

Læknar eru sáttir við bata Alonso og segja hann lausan við öll meiðsli en segja hann gæti verið í mikilli hættu af öðru akstursóhappi í bráð. Í tilkynningu frá McLaren segir, að þeir ráðleggi honum að lágmarka umhverfisáhættur sem gætu leitt til annars heilahristings svo skömmu eftir þann fyrri. Því sé það niðurstaðan að sleppa honum við að keppa í Melbourne, en þar fer fyrsta mót ársins fram eftir 10 daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert