Hóf viðræður við Ferrari 2008

Vettel ræðir við Ferraristjórann Massimo Rovola milli aksturslota við bílprófanir …
Vettel ræðir við Ferraristjórann Massimo Rovola milli aksturslota við bílprófanir í Barcelona. mbl.is/epa

Sebastian Vettel játaði í dag, að fyrir mörgum árum byrjaði ferli sem á endanum leiddi til þess að hann réði sig til Ferrari eftir síðustu keppnistíð.

Þótt hann baðaði sig í ljósi frægðar sem heimsmeistari ökumanna með Red Bull liðinu á síðustu árum var draumurinn um að klæðast rauðum keppnisgalla Ferrari sterkur.

„Veturinn milli 2012 og 2013 hélt ég í leynilegan leiðangur til Maranello til viðræðna við [Luca di] Montezemolo,” segir Vettel í ítalska íþróttablaðinu La Gazzetta dello Sport í dag.

Hann bætir þó við, að þegar árið 2008 hafi Ferrari hafið „óformlegar þreifingar“. Þá var hann keppandi Toro Rosso og á hann var sendur Stefano Domenicali, sem síðar tók við liðsstjórn hjá Ferrari. Domenicali tók upp þráðinn aftur 2010 og lagði snörur fyrir Vettel, segir hann.

„Um mitt síðasta ár var [Stefano] Domenicali horfinn úr starfi en Marco Mattiacci hélt sambandinu og ég ræddi aftur við Montezemolo. Samningar tókust og ég leitaði álits hjá  Sabine Kehm, blaðafulltrúa Michaels [Schumacher]. Því miður gat ég ekki rætt við Michael,” bætir Vettel við.

En hann hafði rætt um möguleikann á að fara í fyllingu tímans til starfa hjá Ferrari við vin sinn og fyrirmynd. „Ó já. Fyrir nokkrum árum sagði ég honum af boði Domenicali og hann sagði mér að í Maranello myndi ég njóta góðs andrúmslofts og gríðarlegan áhuga.“

Sebastian Vettel ekur Ferraribílnum við reynsluakstur í Barcelona.
Sebastian Vettel ekur Ferraribílnum við reynsluakstur í Barcelona. mbl.is/afp
Sebastian Vettel milli aksturslota við bílprófanir í Barcelona.
Sebastian Vettel milli aksturslota við bílprófanir í Barcelona. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert