Williams fær dekkjasekt

Felipe Massa á Williamsbílnum í Sepang í morgun.
Felipe Massa á Williamsbílnum í Sepang í morgun. mbl.is/afp

Williamsliðið var sektað um hvorki meira né minna en 10.000 evrur, næstum 1,5 milljónir króna, fyrir ranga dekkjanotkun á fyrri æfingunni í Malasíukappakstrinum í morgun.

Ökumenn allra liða fá aukasett af aðaldekkjum helgarinnar til brúks fyrsta hálftíma fyrstu æfingarinnar. Þegar hálftímanum lýkur verða þau að skila þessu dekkjasetti til Pirelli á mótsstað. 

Þau mistök áttu sér stað hjá Williams að aukadekkin voru enn undir bíl Felipe Massa eftir að tímarammanum lauk. Eftirlitsdómarar kappakstursins komust að þeirri niðurstöðu að hér hafi verið um óviljandi mistök að ræða og ávinningurinn hafi enginn verið.

Í ljósi þess var það niðurstaða dómaranna að skilorðsbinda refsingu Williams sem þarf því ekki að reiða sektarféð af hendi nema það fremji sömu mistök aftur á vertíðinni.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert