Fullkomin helgi hjá Hamilton

Lewis Hamilton á ferð í Sjanghæ.
Lewis Hamilton á ferð í Sjanghæ. mbl.is/afp

Lewis Hamilton var í þessu að fullkomna kappaksturshelgina í Sjanghæ í Kína með öruggum sigri. Áður hafði hann ekið hraðast á öllum æfingunum þremur og unnið svo keppnina um ráspólinn.

Að sama skapi má segja að þetta hafi verið eðlilegur dagur fyrir Mercedesliðið því annar í mark varð liðsfélagi Hamiltons, Nico Rosberg. Í þriðja sæti varð svo Sebastian Vettel hjá Ferrari og liðsfélagi hans Kimi Räikkönen fjórði.

Ekki verður sagt að mikil spenna hafi verið í keppninni um fremstu sæti en talsverð stöðubarátta átti sér stað kappaksturinn út í gegn í miðjum hópi keppenda og þar fyrir aftan.

Þá hljómar það fremur skringilega að heyra ökumann í öðru sæti kvarta undan því hvað sá fyrsti fer hægt, hann vilji ekki nálgast hann um of því það bitni á dekkjunum undan bílnum hans. Í þessum hlutverkum voru Rosberg og Hamilton um miðbik  kappakstursins. Býsna öfugsnúið en undirstrikar að formúla-1 hættir aldrei að koma á óvart.

Kappakstrinum lauk fyrir aftan öryggisbíl þar sem Toro Rosso bíll Max Verstappen bilaði við markið er nokkrir hringir voru eftir. Of langan tíma tók að ná honum útaf brautinni til að öryggisbíllinn hyrfi úr brautinni og eðlileg keppni hæfist aftur.

Leiður endir fyrir Verstappen sem var ef til vill maður dagsins með mörgum góðum atlögum til framúraksturs sem hvað eftir annað skiluðu árangri. Var hann í áttunda sæti er gírkassi eða vél brást honum. 

Lewis Hamilton fremstur við fyrstu beygju eftir ræsingu í Sjanghæ. …
Lewis Hamilton fremstur við fyrstu beygju eftir ræsingu í Sjanghæ. Honum var aldrei ógnað. mbl.is/afp
Röðin var eins frá ræsingu í endamark. Fremstur fer Lewis …
Röðin var eins frá ræsingu í endamark. Fremstur fer Lewis Hamilton, þá Nico Rosberg og loks Sebastian Vettel. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert