Sauber: fjórða sætið tálmynd

Felipe Nasr á ferð á Saubernum í Sjanghæ.
Felipe Nasr á ferð á Saubernum í Sjanghæ. mbl.is/afp

Sauberliðið getur ekki búist við því að halda fjórða sætinu í stigakeppni liðanna vertíðina út í gegn. Þetta segir liðseigandinn sjálfur, Peter Sauber.

Sauber er sem stendur í fjórða sætinu eftir þrjú mót með 19 stig. Í fimmta sæti er Red Bull með 13 stig en framar eru Williams með 48, Ferrari 79 og Mercedes með 119 stig.

Í fyrra varð Sauber í tíunda sæti í keppni bílsmiða og vann ekki eitt einasta stig á vertíðinni allri. Í fyrsta móti ársins, í Melbourne, urðu Felipe Nasr og Marcus Ericsson í fimmta og áttunda sæti og lögðu grunninn að stöðu þess nú. Liðið fór stigalaust frá Malasíukappakstrinum vegna bilana en báðir ökumenn unnu svo stig að nýju í Sjanghæ um síðustu helgi.

Peter Sauber segir frammistöðu þeirra Nasr og Ericsson hafa virkað einkar hvetjandi á liðið. „Þetta er frábært og við erum að standa okkur vel. Komnir aftur í slaginn og í Sjanghæ sýndum við að úrslitin í Melbourne voru ekki slembilukka,“ segir liðseigandinn við svissneska blaðið Blick.

„Það er hins vegar ímyndunarveiki að halda að við getum hangið á sætinu. Jafnvel sjötta sæti yrði frábær árangur og mikilvægt fyrir framtíð okkar,“ bætir Sauber við. 

Marcus Ericsson á ferð á Saubernum í Sjanghæ.
Marcus Ericsson á ferð á Saubernum í Sjanghæ. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert