Boðar liðsfyrirmæli

Mercedes gæti gripið til liðsfyrirmæla í rimmunni við Ferrari.
Mercedes gæti gripið til liðsfyrirmæla í rimmunni við Ferrari. mbl.is/afp

Mercedesstjórinn Toto Wolff gefur til kynna að liðið beiti liðsfyrirmælum ógni ökumenn Ferrari að staðaldri keppendum Mercedes út formúlutíðina.

Lewis Hamilton og Nico Rosberg urðu í efstu tveimur sætum í bæði Ástralíu og Kína en í millitíðinni lagð'i Sebastian Vettel hjá Ferrari þá að velli í Malasíukappakstrinum. Varð hann auk þess þriðji í fyrrnefndu mótunum tveimur.

Hamilton er sem stendur með 13 stiga forskot á Vettel í stigakeppni ökumanna og Rosberg er fjórum stigum á eftir landa sínum í þriðja sæti. Í keppni bílsmiða hefur Mercedes hins vegar 40 stiga forskot á Ferrari. 

Wolff segir að Mercedes gæti neyðst til að grípa til „óvinsælla“ ráðstafana verði ítalska liðið ógnvaldur að staðaldri. „Takmark okkar er að vera númer eitt, við höfum mikla ábyrgð gagnvart liðsmönnum og stóru vörumerki.

Þetta snýst ekki bara um ökumennina tvo heldur um þúsund manns sem vinna að staðaldri við bíla þeirra. Kæmi að því að við yrðum að skerast í leikinn milli þeirra vegna hættunnar á að tapa kappakstri þá myndum við gera það,“ svaraði Wolff spurningu hvort liðsfyrirmæli kæmu til greina af hálfu Mercedesliðsins.

Wolff segist ekki lengur njóta þess lúxus sem í fyrra er liðið hafði gríðarlega yfirburði á önnur  og gat leyft sér að leyfa Hamilton og Rosberg að slást innbyrðis í hverju móti á fætur öðru. „Við höfum ekki sömu yfirburði og í fyrra er við gátum leyft þeim að keppa innbyrðis vertíðina út í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert