Rosberg datt úr takt

Nico Rosberg (t.h.) og Lewis Hamilton eftir tímatökuna í Mónakó.
Nico Rosberg (t.h.) og Lewis Hamilton eftir tímatökuna í Mónakó. mbl.is/afp

Nico Rosberg hjá Mercedes játaði eftir tímatökuna í Mónakó að hann hefði misst taktinn í brautinni í lokalotunni. Fyrir það hefði hann goldið með því að sjá á eftir ráspólnum til liðsfélaga síns Lewis Hamilton.

Rosberg hafði ekið hraðast þegar þriðja og síðasta lota tímatökunnar rann upp en var ögn lengur með sína fyrri tímatilraun í lokalotunni en Hamilton. Í seinni - og síðustu - tímatilrauninni hugðist hann gera enn harðari atlögu að ráspólnum en gerði mistök  á bremsusvæði og hafði ekkert upp úr krafsinu.

Á sama tíma og sjálfstraust Hamiltons jókst seig það hjá Rosberg. „Ég ætlaði að taka pólinn því við vitum að Lewis yrði ella fljótur í kappakstrinum. Ég hafði trú á því að ég gæti náð honum, en það gekk ekki upp.“

Rosberg vann ráspólinn í Mónakó bæði í fyrra og hitteðfyrra og ók í bæði skiptin til sigurs í sjálfum kappakstrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert