Rosberg játar heppni

Nico Rosberg játaði eftir kappaksturinn í Mónakó að heppni hafi valdið því að hann kom fyrstur í mark en ekki liðsfélagi hans Lewis Hamilton.

Er öryggisbíll var kallaður út seint í kappakstrinum kallaði Mercedesliðið Hamilton inn að bílskúr til dekkjaskipta en Rosberg og Sebastian Vettel hjá Ferrari stoppuðu ekki og mistókst Hamilton að endurheimta forystuna er keppni hófst að nýju.

Rosberg var þá fyrstur og hélt forystunni alla leið í mark og Vettel varð annar.

„Auðvitað er ég afar ánægður með sigurinn, en ég geri mér grein fyrir því að þetta var heppnissigur. Lewis ók frábærlega og hefði verðskuldað sigur virkilega, en svona gerist í kappakstri,“ sagði Rosberg.

„Ég ætla að njóta þessa núna en Lewis var öflugri þessa helgina svo ég verð að leggja hart að mér í framhaldinu,“ bætti Rosberg við. Með sigri tvö mót í röð hefur hann minnkað forystu Hamiltons í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna í 10 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert