Þurfum að bæta okkur á öllum sviðum

Kimi Räikkönen í Montreal.
Kimi Räikkönen í Montreal. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen segir að Ferrari þurfi að bæta sig „á öllum sviðum“ eigi það að gera sér vonir um að draga Mercedesliðið uppi.

Þetta er niðurstaða Räikkönen í framhaldi af kanadíska kappakstrinum í Montreal á dögunum. Er Ferrari eina liðið sem virðist geta ógnað Mercedes en Sebastian Vettel fór með sigur af hólmi í Malasíukappakstrinum og liðið átti mann á verðlaunapalli í mótunum sex sem af eru vertíðar.

Montreal var fyrsta mótið án ökumanns Ferrari á palli en Räikkönen varð fjórði í mark og Vettel fimmti. Munaði þar um afdrifarík mistök þess fyrrnefnda er hann snarsneri bílnum og missti landa sinn Valtteri Bottas hjá Williams fram úr. 

Vettel hóf keppni af 18. rásstað vegna misheppnaðrar tímatöku en vann sig jafnt og þétt fram á við og endaði í fimmta sæti.

„Við verðum að bæta okkur á öllum sviðum. Bíllinn er býsna góður en við urðum að spara bensínið talsvert og það hamlar árangri. Það eru alls konar þættir sem þarf að bæta, ekki bara einn eða tveir,“ segir Räikkönen.

Hann bætir við að framfarir bílsins frá í fyrra séu miklar en enn eigi liðið samt langt í land með að draga Mercedes uppi. Hann væntir þess að bilið í bíla keppinautanna verði minna í næstu mótum en þeim fyrri og byggir það á þeirri tilfinningu sinni að brautin í Montreal hafi hentað Ferraribílunum miklu verr en aðrar brautir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert