70 þúsundustu á milli

Nico Rosberg hjá Mercedes setti besta tímann á fyrstu æfingu bresku keppnishelgarinnar í formúlu-1 í morgun. Ók hann Silverstonebrautina á 70 þúsundustu úr sekúndu fljótar en liðsfélagi hans Lewis Hamilton.

Sem svo oft fyrr voru ökumenn Mercedesliðsins í sérflokki því þeir voru rúmlega sekúndu fljótari með hringinn en þriðji maður, Max Verstappen hjá Toro Rosso.

Innan við sekúnda skildi svo að Verstappen og tíunda mann, Felipe Massa hjá Williams. Milli þeirra urðu - í þessari röð - Kimi Räikkönen hjá Ferrari, Carlos Sainz hjá Toro Rosso, Sebastian Vettel hjá Ferrari, Daniel Ricciardo hjá Red Bull og liðsfélagi hans Daniil Kvyat.

Rosberg ók hraðast á æfingunni þrátt fyrir bilun í vökvakerfi sem varð til þess að hann þurfti að nema staðar við brautarkant. Vélvirkjum Mercedes tókst að gera við bílinn áður en æfingin var úti og setti Rosberg því besta hring sinn og æfingarinnar undir lokin.

Helgin byrjar kröftuglega hjá Toro Rosso með Verstappen í þriðja sæti á lista yfir hröðustu hringi og  Sainz í fimmta sæti.

Þrír þróunarökumenn fengu að spreyta sig með liðum sínum á æfingunni. Susie Wolff stóð sig vel hjá Williams og átti hún 13. besta tímann af 20 þegar upp var staðið. Varð hún á undan bæði Jolyon Palmer hjá Lotus og Raffaele Marciello hjá Sauber.

Fernando Alonso og Jenson Button hjá McLaren kusu að spara vélarnar og óku samtals aðeins 22 hringi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert