Sammála um ýmsar breytingar

Bílarnir og dekkin verða breiðari í framtíðinni til að auka …
Bílarnir og dekkin verða breiðari í framtíðinni til að auka hraða formúlubílanna. mbl.is/afp

Stefnumótandi hópur formúlu-1 náði saman um verulegar breytingar á keppninni á fundi sínum í Englandi í gær. Þar áttu fulltrúa Alþjóða akstursíþróttasambandið (FIA), rekstrarfélag Bernie Ecclestone (FOM) og keppnisliðin.

Dregið verður úr hjálparbúnaði ökumanna og algjört bann við að leiðbeina þeim gegnum talstöðina tekur gildi frá og með belgíska kappakstrinum í haust. Tilgangurinn er að leggja meiri ábyrgð á  akstrinum á ökumennina sjálfa eins og áður var.

Refsingar vegna vélabrúks umfram kvóta verða stokkaðar upp í framhaldi af miklum afleiðingum slíks í ár. Sömuleiðis verður reglum um þróun véla á keppnistíð breytt. Gangi nýr  vélarframleiðandi til liðs við formúluna fær hann að brúka einni vél fleira en aðrir á sínu fyrsta keppnistímabili. Gildir það afturvirkt á næsta ári og nýtist því Honda, sem sér McLaren fyrir vélum.

Þá lýsti stefnuhópurinn stuðningi við frelsi liðanna í dekkjavali, að hraði bílanna verði aukinn með breiðari dekkjum og breytingum á straumfræði þeirra, að vélarhávaði verði aukinn með breytingum á pústkerfi. Þá varð hópurinn sammála um að gera djarfar breytingar á tímatökum og fyrirkomulagi keppnishelga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert