Ferrari ekki í afturför

Kimi Räikkönen á ferð í Silverstone í dag.
Kimi Räikkönen á ferð í Silverstone í dag. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen stendur á því fastar en fótunum, að Ferrari sé ekki í afturför. Þetta staðhæfði hann eftir að báðir ökumenn Williamsliðsins slóu Ferrariþórunum tveimur við í tímatökunni í Silverstone í dag. 

Räikkönen varð í fimmta sæti og SebastianVettel í því sjötta en Felipe Massa og ValtteriBottas hjá Williams urðu í þriðja og fjórða sæti. Á Räikkönen og landa hans Bottas munaði 0,2 sekúndum.

Räikkönen lýsti þeirri skoðun sinni að niðurstaðan hefði ráðist af aðstæðum fremur en af skorti á framförum hjá Ferrari.

„Tímatakan var ekki auðveld, í kröftugum vindi var meðfærileiki bílsins ekki ákjósanlegur. Aðstæður voru mjög brigðular fyrir alla þar sem þær breyttust ótt og títt, frá einni beygju til annarrar. Við vitum að þegar hann blæs er það okkur í óhag og þrátt fyrir betrumbætur gátum við ekki náð heilum hring eðlilegum.

Auðvitað erum við ekki ánægðir með fimmta og sjötta sæti, það eru vonbrigði að hafa ekki orðið framar. En við reyndum okkar besta og vonandi gengur betur á morgun. Ég held okkur sé ekkert að fara aftur, lutum bara í lægra haldi vegna aðstæðna. Við skulum bíða eftir kappakstrinum, þar munum við reyna allt til að vinna okkur upp um einhver sæti,“ sagði Räikkönen eftir tímatökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert