Hamilton á ráspól á heimavelli

Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Silverstone.
Lewis Hamilton fagnar ráspólnum í Silverstone. mbl.is/afp

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna ráspól heimakappaksturs síns, þess breska, í Silverstone. Keppni þeirra liðsfélaganna, hans og Nico Rosberg, um pólinn varði allt þar til seint í síðustu tímatilraun.

Rosberg var öflugari framan af og í fyrri tímatilrauninni í lokalotunni stefndi í að hann héldi fremsta sæti, en gerði akstursmistök með þeim afleiðingum að Hamilton varð 0,113 sekúndum á undan. Í seinni tilrauninni var Rosberg sömuleiðis fljótari framan af, en breskum áhorfendum til mikillar gleði dugði það þó ekki til að velta en Hamilton úr pólsætinu.

Með þessu hefur Hamilton unnið átta ráspóla á árinu og Rosberg aðeins einn.

Á annarri rásröð á morgun verða Williamsmennirnir Felipe Massa og Valtteri Bottas. Ökumenn Ferrari, Kimi Räikkönen og Sebastian Vettel, hefja leik á þriðju rásröð, í fimmta og sjötta sæti.

Á sjöunda rásstað verður Daniil Kvyat hjá Red Bull, þeim áttunda Carlos Sainz hjá Toro Rosso, þeim níunda Nico Hülkenberg hjá Force India og loks leggur Daniel Ricciardo hjá Red Bull af stað í tíunda sæti.

Hart var tekið á því ef ökumenn reyndu að græða tíma og hraða á því að renna sér út fyrir brautarlínuna í Copse-beygjunni. Færu öll fjögur hjól bíls út fyrir hvítu línuna sem markar brautina voru ökumenn sviptir tíma. Þrátt fyrir að hafa verið rækilega aðvaraðir um þetta fyrirfram gerðu langflestir ökumennirnir sig seka um slíkt brot. Voru tímar þeirra ítrekað strikaðir út.

Jenson Button hjá McLaren komst ekki áfram úr fyrstu lotu …
Jenson Button hjá McLaren komst ekki áfram úr fyrstu lotu tímatökunnar. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert