Ferrari afneitar Bottas

Valtteri Bottas.
Valtteri Bottas. mbl.is/afp

Ferrariliðið vísar á bug fregnum ítalskra fjölmiðla þess efnis að Valtteri Bottas hafi verið ráðinn til liðsins og leysi landa sinni Kimi Räikkönen þar af hólmi á næsta ári.

Óvissa hefur ríkt um framtíð Räikkönen hjá liðinu og hefur ekki dregið úr vangaveltum þar sem Ferrariliðið hefur kosið að bíða með hugsanlega framlengingu ráðningarsamnings hans.

Hik Ferrari gagnvart Räikkönen hefur hvað eftir annað ýtt undir ágiskunarfréttir þess efnis að liðið væri á höttunum eftir Bottas.

Williamsliðið á fyrsta valkost á Bottas sem þýðir að Ferrari yrði að komast að fjárhagslegu samkomulagi við ensku keppinauta sína vilji það fá Bottas í sínar raðir 2016 við hlið Sebastian Vettels.

Ítalska íþróttadagblaðið Corriere dello Sport staðhæfði fyrir helgi, að liðin tvö hafi komist að samkomulagi er greiði leið Bottas til Ferrari. Talsmaður liðsins lét hins vegar hafa eftir sér að frétt blaðsins væri „argansta kjaftæði“. 

Didier Coton, umboðsmaður Bottas, skrifaði á Twitter-síðu sína eftir frétt Corriere: „Enn sá morgun! Hitabylgjan breiðist út til margra landa, ekki síst hefur hún stungið sér niður á Ítalíu. Kveikjum á loftkælingunni og verum svöl.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert