Hamilton fullkomnaði þrennuna

Nico Rosberg velgdi liðsfélaga sínum Lewis Hamilton undir uggum í …
Nico Rosberg velgdi liðsfélaga sínum Lewis Hamilton undir uggum í Búdapest í morgun. mbl.is/AFP

Allt er þegar þrennt er, gæti Lewis Hamilton verið að hugsa núna, en hann ók manna hraðast á þriðju og síðustu æfingu ungversku keppnishelgarinnar í Búdapest.

Æfingunni var að ljúka en bílar Mercedesliðsins voru einkar jafnir og skiptust á um að vera í toppsæti lista yfir hröðustu hringi. Á endanum hafði Hamilton betur gegn Nico Rosberg en á þeim munaði þó aðeins tíunda úr sekúndu.
 
Besti hringur Hamiltons mældist 1:22,997 mín en Rosberg ók á 1:23,095 mín.

Þriðja besta hringinn átti Sebastian Vettel hjá Ferrari og þann fjórða besta Daniil Kvyat hjá Red Bull.

Nýliðinn Carlos Sainz varð fimmti en frysta tuginn fyllt síðan - í þessari röð - Nico Hülkenberg hjá Force India, Max Verstappen hjá Toro Rosso, Fernando Alonso hjá McLaren, Daniel Ricciardo hjá Red Bull og Romain Grosjean hjá Lotus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert