„Þetta var fyrir þig, Jules“

Sebastian Vettel var í þessu að vinna sigur í einstaklega tíðindasömum kappakstri í Hungaroring við Búdapest. „Takk fyrir Jules, þessi sigur er fyrir þig“, sagði hann í talstöðinni á innhring og tileinkaði sigurinn franska ökumanninum Jules Bianchi sem lést fyrir rúmri viku, en hann var á mála hjá Ferrari.

„Merci Jules. C'est victoire est pour toi,“ sagði Vettel á frönsku í talstöðinni og hefur eflaust brætt mörg hjörtu franskra áhorfenda. Í öðru sæti - og í fyrsta sinn á verðlaunapalli á ferlinum - varð Daniil Kvyat hjá Red Bull. Og liðsfélagi hans Daniel Ricciardo varð þriðji en þetta er í fyrsta sinn í mörg misseri sem Red Bull fagnar tveimur pallsætum í sama kappakstri. Sömuleiðis þeir tileinkuðu Bianchi og minningu hans árangur sinn.

Í ræsingunni gerðu Vettel og liðsfélagi hans Kimi Räikkönen sér lítið fyrir og skutust úr þriðja og fjórða sæti í þau tvö fremstu. Glíma þeirra og ökumanna Mercedes gegnum fyrstu beygjurnar var tröllaukin og spennandi. Höfðu þeir Vettel og Räikkönen betur og smám saman óx bilið milli þeirra og Mercedesbílanna sem þykja ekki sérdeilis skilvirkir í umferð. Undir lokin - síðustu 10-12 hringina myndaðist spenna er Nico Rosberg á Mercedes Benz og Ricciardo voru innan við hálfri annarri sekúndu á eftir Vettel. Þrátt fyrir að Vettel ætti í erfiðleikum með að ná æskilegum hita í dekkin komust þeir aldrei nógu nálægt til að geta ógnað honum. 

Lewis Hamilton hóf keppni af ráspól en klúðraði ræsingunni og var í fjórða sæti eftir fyrstu beygjurnar. Og áður en fyrsti hringur var liðinn hafði hann hrakist út í malargryfju og fallið niður í tíunda sæti. Mistök og refsingar eftir það gerðu að verkum að hann var á tíma í 13. sæti en á síðustu 10 hringjunum vann hann sig aftur upp - meðal annars vegna akstursatvika - og hafnaði í sjötta sæti.

Þrátt fyrir mótlætið og mistökin jók Hamilton forystu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna þar sem liðsfélagi hans Nico Rosberg varð níundi.

Rosberg var lengstum þriðji en komst fljótt eftir innkomu öryggisbíls upp í annað sætið vegna vélarvanda Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Með þeirri bilun urðu vonir Ferrari um tvöfaldan sigur að engu. Með þessu virtust þó Mercedesmenn allt í einu eygja möguleika á sigri og 10 hringjum frá marki var Rosberg efstur að stigum í keppni ökumanna, ef úrslitin hefðu orðið eins og þau stóðu þá.

Lukkudísir höfðu alls ekki verið með Rosberg um helgina og þær brugðust honum einnig á lokaspretti kappakstursins þar sem hann rakst á framvæng Ricciardo í stöðuslagt þeirra í fyrstu beygju hringsins með þeim afleiðingum að vinstra afturdekkið sprakk. Löng leið var inn að bílskúr til dekkjaskipa og á þeim kafla mátti hann horfa upp á möguleika sína í stigakeppninni við Hamilton fara forgörðum.     

Með sigrinum hefur Vettel náð því Ferrari því markmiði sínu að vinna a.m.k. tvö mót í ár, en fyrri sigurinn kom í Malasíukappakstrinum og var Vettel þar einnig að verki.

Fjórði maður í mark í dag varð nýliðinn Max Verstappen hjá Toro Rosso og er það besti árangur hans í keppni í formúlu-1 í ár.

Williamsliðið reið ekki feitum hesti - öllu heldur engum hesti - frá ungverska kappakstrinum. Framan af var Valtteri Bottas þó framarlega í slag en möguleikar hans urðu að engu er dekk sprakk seint í kappakstrinum.    Urðu þeir Massa í 12. og 13. sæti.

Kappaksturinn í Hungaroring í dag er sá fyrsti frá í Sao Paulo í Brasilíu í fyrra sem hvorugur ökumanna Mercedes stendur á verðlaunapalli í mótslok.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert