Bottas: Engin samskiptavandamál

Valtteri Bottas á Williamsbílnum í Monza.
Valtteri Bottas á Williamsbílnum í Monza. mbl.is/afp

Valtteri Bottas hjá Williams staðhæfir, að vangaveltur í sumar sem bendluðu hann við Ferrariliðið á næsta ári, 2016, hafi engar neikvæðar afleiðingar haft í för með sér í samskiptum sínum innan Williamsliðsins.

Óvissa um framtíð Kimi Räikkönen hjá Ferrari hleypti af stað sögusögnum og spádómum um að ítalska liðið væri með augastað á Bottas og að leita eftir leiðum til að fá hann frá Williams. Til þess hefði Ferrari þurft að kaupa upp samning hans við enska liðið.

Á endanum framlengdi Ferrari svo samning sinn við Räikkönen út næsta ári.

Williams tilkynnti svo í aðdraganda ítalska kappakstursins í Monza að Bottas og Felipe Massa myndu áfram verða ökumenn liðsins 2016.

„Við getum hafið vinnu við þróun næsta árs bíls og deilt milli okkar öllum upplýsingum án nokkurra vífillengja,“ bloggar Bottas á heimasíðu Williamsliðsins. „Samskipti okkar biðu enga hnekki eins og gerst getur þegar fólk heldur að þú sért að svipast um og leita leiða til að yfirgefa lið. Skaði er enginn og ég er afar sæll með að vera áfram hjá Williams og liðið er ánægt með það líka.

Ég á í afar góðu sambandi við hvern einn og einasta starfsmann Williams og við höfum þróað með okkur mjög gott samstarf undanfarin ár. Ég held þetta sé besti vinnustaðurinn sem stendur og samfella er af hinu góða, ekki síst þar sem liðsfélaginn verður áfram sá sami. Við Felipe ættum að geta með samvinnu okkar að geta náð fram enn betri árangri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert