Massa á mesta hraða ársins

Felipe Massa tekur á því í tímatökunni í Mexíkó.
Felipe Massa tekur á því í tímatökunni í Mexíkó. mbl.is/afp

Felipe Massa hjá Williams náði mesta hraða sem mælst hefur á árinu í tímatökunni í Autodromo Hermanos Rodriguez í Mexíkó í gær. Ók hann yfir hraðagildruna á 364,3 km/klst ferð.

Hraða þessum náði Massa í fyrstu lotu tímatökunnar. Það er talið hjálpa upp á sakir, að brautin er í 2,2 kílómetra hæð yfir sjávarmáli. Sakir þunna loftsins - súrefnismettun þess er aðeins 78% miðað við þéttleika við sjávarmál - er loftmótstaða fyrir bílana og vængafl ögn minni. 

Aukinheldur hjálpar til að komið er á góðri ferð gegnum beygjuna inn á upphafs- og endakafla brautarinnar sem er 1,2 km langur og þar nutu ökumenn þess að geta haft DRS-vænginn uppi til að bæta enn frekar í ferðina.

Liðsfélagi Massa, Valtteri Bottas, náði næstmestum hraða, 360,8 km/klst.

Felipe Nasr var hraðastur ökumanna með Ferrarivél í aflrásinni, 358,2 km. Bílar búnir Renault og Honda vélum voru öðrum talsvert að baki að hraða. Max Verstappen hjá Toro Rosso og Fernando Alonso hjá McLaren óku á 350,9 km og 345,9 km gegnum hraðagildruna. Hægast fór hins vegar Alexander Rossi á Manor Marussia, var 32 km/klst hægari en Massa, eða á 332 km.

Til samanburðar var hraðasti tímatökutími fram að þessari helgi 354,6 km. Þeim hraða náði Sergio Perez á Force India í Monza á Ítalíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert