Massa íhugar að hætta

Massa er á 14. keppnistíð sinni í formúlu-1 í ár.
Massa er á 14. keppnistíð sinni í formúlu-1 í ár.

Felipe Massa segist munu hætta keppni í formúlu-1 fái hann ekki starf hjá toppliði er samningur hans við Williamsliðið rennur út í lok næsta árs, 2016.

Massa er þriðji elsti keppandinn í formúlunni, er 34 ára. Eldri eru hinn 36 ára gamli Kimi Räikkönen og 35 ára gamli Jenson Button.

Brasilíumaðurinn knái hefur verið keppandi frá og með vertíðinni 2002 og því rennur sú fimmtánda upp í mars á næsta ári. Lengst hefur hann dvalist hjá Ferrari, en þar á bæ keppti hann í átta ár.

Góð frammistaða hans á þessu ári við hlið hins 26 ára gamla Finna, Valtteri Bottas, hefur tryggt honum áframhaldandi vinnu hjá Williams, út næsta ár. Á ferlinum hefur Massa unnið 11 sinnum mótssigur.

„Samningur minn rennur út á næsta ári og sú vertíð verður sú mikilvægasta til að átta sig á því hvort ég haldi áfram eða ekki,“ segir Massa við brasilíska íþróttablaðið UOL Esporte. „Fái ég tækifæri til að keppa með samkeppnisfæru liði held ég áfram. Annars hætti ég,“ bætir hann við.

Spurður hvort hann gæti hugsað sér að hverfa til keppni í vinsælustu akstursíþrótt Bandaríkjanna, NASCAR svaraði Massa: „Þeir keppa allt of! Ég held ég yrði útskúfaður úr fjölskyldunni væri ég fjarri heimi að keppa hverja einustu helgi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert