Sárt að ná ekki sigri

Bílar Red Bull hafa um árabil verið knúnir vélum frá …
Bílar Red Bull hafa um árabil verið knúnir vélum frá Renault. mbl.is/afp

Það verða Renault talsverð vonbrigði aki enginn bíll með vél frá þeim til sigurs í móti í ár. Aðeins einn kappakstur ere eftir, í Abu Dhabi um helgina.

Þetta segir annar helsti stjórnandi Renault á mótsstað, Remi Taffin. Síðasta sigurlausa vertíð franska bílsmiðsins var árið 2007 er efstu sætin voru oftast frátekin fyrir annað hvort Ferrari eða McLaren.

Og í ár hefur Renault staðið Ferrari og Mercedes að baki bæði hvað getu og endingartraust varðar. Síðasta mót sem Renault fagnaði sigri í var belgíski kappaksturinn í fyrra en hann vann Daniel Ricciardo hjá Red Bull.

Taffin er þó á því að Renault hafi að undanförnu dregið á toppliðin. „Á okkar mælikvarða hefur árið ekki verið eins árangursríkt og við höfðum vonast eftir og það verður sárt að ljúka árinu án sigurs. Við höfum lært mikið og höfum verið að taka öflug skref fram á við sem munu styrkja okkur í framtíðinni. Eftir slæma byrjun hefur endingartraustið komist í lag og getulega erum við nær keppinautunum og við sumar aðstæður erum við færir um að keppa um pallsæti. Næsta skrefið er að geta keppt um sigur og reynslan sem við höfum af árinu í ár ætti að hjálpa okkur að láta það rætast,“ bætir Taffin við.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert