Tvö ár síðan Schumacher féll í dá

Schumacher og Willi Weber voru góðir vinir í 25 ár.
Schumacher og Willi Weber voru góðir vinir í 25 ár. Skjáskot/Facebook

Tvö ár eru síðan þýski ökuþórinn Michael Schumacher slasaðist á skíðum í Frakklandi þar sem hann datt og lenti með höfuðið á steini. Lítið er vitað um ástand hans í dag en fjölskylda og talsmaður hafa ekki viljað tjá sig um bataferlið.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Schumachers í Formúlu-1 kappakstrinum, Willi Weber, ásakar eiginkonu heimsmeistarans fyrrverandi, Corinnu, um að banna honum að heimsækja vin sinn. Weber fjallaði um málið á facebooksíðu sinni á jóladag þar sem hann lýsti kvölum sínum yfir að Schumacher-fjölskyldan neitaði að halda sambandi við hann.

„Því miður er staðan svona. Corinna bannar mér að heimsækja Schumacher en ég hef oft reynt að fá leyfi til heimsóknar, án árangurs. Ástandið er hræðilegt fyrir mig og fjölskyldan þjáist vegna þess. Fjölskyldur okkur voru svo nánar í aldarfjórðung en núna skilur enginn neitt,“ sagði Weber í samtali við þýska blaðið Bild.

Lögfræðingur Schumachers, Felix Damm, segir að almenningur hafi engan rétt á upplýsingum um líðan ökuþórsins eftir slysið. „Slysið sjálft var þannig að ekki var hægt annað en að fjalla um það. Hins vegar var engin ástæða til að fjalla nánar um það eftir að bataferlið hófst,“ sagði Damm við þýska fjölmiðla.

Því var haldið fram á dögunum að Schumacher hefði náð undra­verðum bata í end­ur­hæf­ingu sinni. Var þar sagt að hann væri far­inn að geta lyft höndun­um og jafn­vel far­inn að ganga á ný. Talsmaður Schumachers, Sa­bine Kehm, neitar þessum fréttum.

„Því miður neyðumst við til að leiðrétta það að Michael er ekki far­inn að geta hreyft sig. Slík­ar staðhæf­ing­ar eru glóru­laus­ar, sér­stak­lega vegna al­vöru málsins. Michael vill að einka­líf sitt sé virt og svona sög­ur gera ekk­ert nema vekja fals­von­ir,“ sagði Kehm.

Schumacher verður 47 ára 3. janúar og aðeins nánustu ættingjar og vinir vita hvernig ástand hans er.

Fáir vita hvert ástand Schumachers er.
Fáir vita hvert ástand Schumachers er. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert