Vettel fór hraðast

Sebastian Vettel hjá Ferrari ók hraðast í dag á seinni æfingadeginum í þágu dekkjafyrirtækisins Pirelli sem er að þróa ný regndekk til notkunar í formúlu-1.

Sem og í gær sinntu þrjú lið reynsluakstrinum, Ferrari, Red Bull og McLaren. Alls lögðu þau að baki 659 hringi eða 2.326 kílómetra dagana tvo í Paul Ricard brautinni í Suður-Frakklandi.

Besti hringur Vettels af 134 mældist 1:06,750 mínútur. Daniil Kvyat hjá Red Bull var 0,1 sekúndu lengur í förum á sínum 113 hringjum eða á 1:06,833 mín. Eins og í gær átti Stoffel Vandoorne hjá McLaren þriðja besta tímann, 1:07,758 mín., en hann lagði að baki 127 hringi.

Vettel tók í dag við af Kimi Räikkönen og Kvyat af Daniel Ricciardo, en McLaren tefldi varaökumanni sínum fram báða dagana.

Næst spreyta formúluliðin sig við reynsluakstur í Barcelona 22. - 25. febrúar og aftur 1. - 4. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert