Renault frumsýnir fyrst liða

Renault varð í dag fyrst formúluliðanna til að frumsýna keppnisbíl sinn fyrir komandi vertíð. Reyndist hann svartur og gulur og hefur hlotið tegundarheitið RS16.

Frumsýningin fór fram í tækni- og þróunarmiðstöð Renault í útjaðri Parísar, að viðstöddum forsvarsmönnum liðsins og ökumönnum þess, enska nýliðanum Jolyon Palmer og Dananum Kevin Magnussen. 

Undanfarin ár hefur aðkoma Renault að keppni í formúlu-1 snúist um að smíða vélar í keppnisbíla nokkurra liða. Þar á meðal Lotus sem franski bílsmiðurinn yfirtók svo í fyrrahaust. Var þar um að ræða Renaultliðið sem Renault tefldi fram til keppni á árunum 2002 til 2010 og seldi það síðan fjármálamanni í Lúxemborg.

Forsvarsmenn liðsins gáfu til kynna að vel geti verið að litir yfirbyggingarinnar taki breytingum áður en keppni hefst í byrjun mars.

Reynsluökumaður Renault í ár - og þar með varamaður Keppnisþóranna - verður Frakkinn Esteban Ocon sem er heimsmeistari í GP3-mótaröðinni frá í fyrra. Var hann einnig viðstaddur frumsýninguna í dag.

Keppnisstjóri Renaultliðsins verður Frederic Vasseur og tæknistjóri verður Bob Bell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert