„Trúi þessu ekki ennþá“

Danski ökumaðurinn Kevin Magnussen segist enn „ekki trúa því“ að hann muni keppa í formúlu-1 í ár, fyrir hið nýja lið Renault. Samdi hann við liðið rétt áður en keppnisbíll þess var frumsýndur í París í dag.

Magnussen greip tækifærið sem bauðst er starfi venezúelska ökumannsins Pastors
Maldonado var sjálfhætt vegna vanefnda styrktarfyrirtækja sem keyptu keppnissæti hans.

„Tilfinningin er hreint ótrúleg og skiptir mig svo miklu,“ sagði hinn 22 ára gamli Magnussen við frumsýningarathöfn Renault í París í dag. Þar með er hann kominn aftur inn fyrir þröskuldinn eftir að hafa misst starf keppnis- og þróunarökumanns hjá McLaren.

„Það er ekki bara keppni í formúlu-1 heldur starf hjá toppliði,“ bætti Magnussen við um ráðningu sína. „Renault mun keppa um heimsmeistaratitla í framtíðinni, aðdragandi kann að verða að því, en þeir eru í þessu til að vinna og það er markmið sem ég deildi með liðinu. Ég get vart trúað því að vera hluti af því,“ bætti Magnussen við. 

Magnussen keppti fyrir McLaren árið 2014 en látinn rýma fyrir Fernando Alonso árið eftir og settur þá vertíð í starf reynslu- og varaökumanns.

Hann segir það hafa verið erfitt að sitja á hliðarlínunni á öllum mótunum í fyrra. Það hafi aldrei verið ætlan sín eftir að hafa keppt í ýmiss konar kappakstri ár hvert frá sex ára aldri. „Vonandi sanna ég ýmsa hluti í ár. Áhuginn eftir ár í burtu er blússandi, mig hungrar í að hefja keppni aftur og sanna hvers virði ég er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert