Williams frumsýnir

Williamsliðið frumsýndi keppnisbíl ársins á netinu í dag en eftir helgi hefur það bílprófanir í Barcelona, ásamt öðrum keppnisliðum formúlunnar.

Að útliti til svipar bílnum mjög til keppnisfáks liðsins frá í fyrra, aðeins smávægilegar stílbreytingar í útfærslu skreytinga. Litasamsetningin er að öðru leyti meira og minna sú sama og undanfarin tvö ár.  

Liðsstjórinn Frank Williams sagði í morgun að liðið ætlaði sér að festa sig í sessi meðal toppliða en það varð í þriðja sæti í keppni bílsmiða bæði 2014 og 2015. „Þetta var frábær árangur miðað við hverju við höfum úr að spila. Að halda sætinu verður áskorun en við erum staðráðin í því sem lið að halda áfram að bæta okkur, því aðeins sigur er nógu góður árangur,“ sagði Sir Fank.

Hann lagði áherslu á að mjög mikill stöðugleiki væri innan liðsins, ekki síst í tæknisveitum þess. Þá teflir það óbreyttu ökumannapari fram þriðja árið í röð, þ.e. þeim Felipe Massa og Valtteri Bottas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert