Vettel á tauginni

Kvyat (t.v.) og Vettel deila í Sjanghæ.
Kvyat (t.v.) og Vettel deila í Sjanghæ.

Sebastian Vettel hjá Ferrari var óhress vegna samstuðs þeirra Kimi Räikkönen í fyrstu beygju eftir ræsingu í Sjanghæ. Á það horfði Sergio Marchionni forstjóri Fiat felmtri sleginn. Vettel skellti skuldinni á Daniil Ricardo hjá Red Bull.

Vettel kallaði í talstöðinni að einhver brjálæðingur hefði troðið sér inn fyrir hann og hefði hann neyðst til að gefa eftir til að komast hjá árekstri en við það hefði hann rekist utan í Räikkönen, sem varð að fá nýjan framvæng.

Kvyat var þessu ekki alveg sammála og sagðist einungis hafa stungið sér inn í stóra glufu sem  Vettel hefði opnað og boðið honum að renna sér í. „Svona er keppni,“ svaraði Kvyat er Vettel gagnrýndi harkalega framferði hans er þeir biðu þess að ganga út á verðlaunapall.

„Þú komst eins og tundurskeyti inn að mér og hefði ég ekki sveigt frá til vinstri hefðum við skollið saman,“ sagði Vettel og bætti við að það væri ekki kappakstur að klessa. „Þú verður að gera ráð fyrir því að þegar þú sækir eins og brjálæðingur geturðu tjónað bílinn þinn. Þú varst heppinn í þetta sinn, minn bíll skemmdist og bíll Kimi líka.“

Kvyat hló að reiðilestri Vettels en með þriðja sætinu jafnaði hann sinn besta árangur og vann sæti fyrir Red Bull í fyrsta sinn á árinu. Er  Vettel sagði aftur að hann hefði næstum því klesst svaraði Kvyat: „Ég klessti ekki á þig og er á verðlaunapalli svo þetta ætti að hafa verið í lagi. Þú ert líka á pallinum, svo þetta er fínt.“

Eitthvað mætti ætla að hinn 21 árs gamli Rússi hafi eitthvað til síns máls því eftirlitsdómarar kappakstursins töldu enga ástæðu vera til að rannsaka þetta umdeilda atvik. Sárt hefur heimsmeistaranum fyrrverandi eflaust þótt að verða fyrir þessu óhappi, að keyra utan í liðsfélaga sinn, frammi fyrir vökulum augum Fiat-forstjórans sem fylgdist með sínum mönnum, og þeim til hvatningar, úr bílskúrum Ferrari í Sjanghæ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert