Verstappen leysir Kvyat af hólmi

Max Verstappen (t.h.) og Daniil Kvyat ræðast við rétt fyrir …
Max Verstappen (t.h.) og Daniil Kvyat ræðast við rétt fyrir upphaf spænska kappakstursins í Barcelona í fyrra. AFP

Rússneska ökumanninum Daniil  Kvyat hefur verið refsað harkalega af hálfu Red Bull liðsins. Hefur hann verið settur til baka til systurliðsins Toro Rosso og leysir Max Verstappen hann af hólmi hjá aðalliði Red Bull út vertíðina.

Breytingin tekur þegar gildi og mun Verstappen aka fyrir Red bull í Spánarkappakstrinum í Barcelona eftir rúma viku og Kvyat verður á bíl Toro Rosso.

Tæpast á refsing Kvyat fyrir glæfraakstur sér engin fordæmi í þessum dúr. Varð honum það á í upphafi rússneska kappakstursins á heimavelli í Sotsjí við Svartahaf, að keyra tvisvar aftan á Sebastian Vettel hjá Ferrari í fyrstu þremur beygjunum. Hafði þeim lent saman í næsta móti á undan, kínverska kappakstrinum í Sjanghæ.  

Liðsstjórinn Christian Horner er á því að Kvyat muni á ný finna réttu fjölina á sínum gamla vinnustað og koma sterkur til bala úr dvölinni þar og sýna réttu hæfileika sína. Þótt hann sé aðeins 22 ára og hafi tíma til að komast út úr hjáleiðinni og aftur inn á réttar brautir er öruggt talið, að þessar hrókeringar muni leggjast í Kvyat sem niðurlæging.

Jafnframt er sagt, að Horner og aðrir æðstu stjórar Red Bull liðsins hafi gripið gæsina fegins hendi og veitt Verstappen stöðuhækkun í þeim tilraunum sínum til að koma í veg fyrir að hann freistist til að fara til Mercedes og Ferrari, en liðin tvö eru bæði sögð hafa sýnt áhuga á að fá belgísk-hollenska táninginn til sín.

Daniil Kvyat í bílskúr Red Bull í Sotsjí um síðustu …
Daniil Kvyat í bílskúr Red Bull í Sotsjí um síðustu helgi. AFP
Stjórar Red Bull eru sagðir hafa gripið tækifæri til að …
Stjórar Red Bull eru sagðir hafa gripið tækifæri til að veita Max Verstappen stöðuhækkun í þeirri von að hann haldist hjá liðinu eftir að núverandi samningur rennur út 2017. AFP
Daniil Kvyat í rússneska kappakstrinum, en þar átti hann erfiða …
Daniil Kvyat í rússneska kappakstrinum, en þar átti hann erfiða daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert