„Aksturstilvik“

Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg bítast í návígi í …
Lewis Hamilton (t.v.) og Nico Rosberg bítast í návígi í fyrstu beygjum kappakstursins í Barcelona. AFP

Dómarar kappakstursins í Barcelona ákváðu að skella engri skuld á ökumenn Mercedes vegna áreksturs þeirra í upphafi keppni. Segja þeir samstuðið hafa verið „aksturstilvik“.

Nico Rosberg og Lewis Hamilton glímdu um fyrsta sætið. Sá síðarnefndi sat á ráspól en Rosberg seig fram úr í ræsingunni og varð á undan inn í fyrstu beygju. Út úr beygju þrjú kom Hamilton betur og tækifæri til framúraksturs blasti við.

Færði hann bíl sinn yfir á hægrikantinn og hugðist komast innanvert fram úr, en í sömu andrá reyndi Rosberg að verja stöðu sína, með þeim afleiðingum að Hamilton ók út á gras og missti vald á bílnum sem skall á Rosberg.

Enduðu báðar silfurörvar Mercedes út í sandgryfju og féllu úr leik.

Í ljós kom, að bíll Rosberg var að hlaða endurheimta orku á leið út úr þriðju beygju með þeim afleiðingum að Hamilton nálgaðist hratt. Þegar hann áttaði sig á þessu og að Hamilton væri að koma upp undir hann breytti Rosberg vélarstillingunni og breytti stefnu í varnarskyni.

Á þeirri stundu hafði Hamilton lagt til atlögu og komst ekki út úr aðstæðum sínum með fyrrgreindum afleiðingum.


Grand Prix d'Espagne - Le replay du crash par CanalPlusSport

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert