Prófaði brautina í Bakú

Gulhuseyn Abdullayev á ferð í brautinni í Bakú.
Gulhuseyn Abdullayev á ferð í brautinni í Bakú.

Rúmur hálfur mánuður er í að Evrópukappaksturinn fari fram í olíuborginni Bakú við Kaspíahaf en nú hefur brautin verið prufukeyrð í fyrsta sinn, og það af heimamanni.

Það varökumaðurinn Gulhuseyn Abdullayev sem keppir í opnu Euroformúlunni er var undir stýri. Ók hann fjóra hringi á gömlum GP3-formúlubíl og má ferðast með honum einn þeirra í meðfylgjandi myndskeiði.

Brautin er sex kílómetra löng, alls 20 hraðar og hægar beygjur, og liggur um innri borgarhverfi Bakú, sem er höfuðborg Azerbajdzhan. Meðal annars er ekið inn í miðborgina, um Azadliq-torgið og Gömluborg.

Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í formúlu-1 í Bakú og er það eina nýja viðbótin á mótaskrá íþróttarinnar í ár. Evrópukappaksturinn fer þar fram sunnudaginn 19. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert