Of mikill þrýstingur í dekkjunum

Fernando Alonso rennir McLarenbílnum niður að höfninni í Mónakó og …
Fernando Alonso rennir McLarenbílnum niður að höfninni í Mónakó og ljósmyndarar kappakstursins eru í góðu færi. AFP

Eric Boullier, liðsstjóri McLaren, segir of háan dekkjaþrýsting í upphafi keppni standa liðinu fyrir þrifum. Leiti liðið leiða til að komast hjá þessum vanda.

Þrýstingurinn mikli bitnar á gripi dekkjanna og dregur úr því, að sögn Boullier. Fái liðið dekkin ekki til að „smella inn“ á öllum brautum. Telur hann að með breytingum á undirvagninum sé lausnar senn að vænta. 

Boullier segir vandamálið hafa sín áhrif til hins verra á sjálftraust ökumannanna. Með ónógu gripi geti þeir ekki knúið bílana út á ystu nöf. Að geta nýtt sér kosti dekkja eins skilvirkt og unnt er segir hann forsendu fyrir því að McLaren blandi sér í keppni við Mercedes, Ferrari og Red Bull.

Dekkjaframleiðandinn Pirellil hefur knúið á um að dekkjaþrýstingur sé hár og Boullier segist ekki vita hvort eða hvernig önnur lið hafi komist í kringum það. „Það má vera að við höfum skoðun á því hvað önnur lið hafa gert og grunsemdir, en við verðum bara að einbeita okkur að okkar eigin vandamálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert