Red Bull gæti ógnað Mercedes

Kevin Magnussen keppir fyrir verksmiðjulið Renault í ár.
Kevin Magnussen keppir fyrir verksmiðjulið Renault í ár. AFP

Alain Prost, franski heimsmeistarinn fyrrverandi, segir allt búa í Red Bull liðinu til að geta verið erfiðasti keppinautur Mercedesliðsins. Segir þessi sendiherra Renault að franski bílsmiðurinn sé ánægður með gengi Red Bull þótt hann tefli líka fram eigin liði í formúlu-1.

Renault tók Lotusliðið yfir í árslok 2015 er mikil snurða hafði hlaupið á þráðinn í samskiptum fyrirtækisins við Red Bull. Það breyttist til hins betra og ásamt því að vera með eigin lið framlengdi Renault samning um að sjá Red Bull áfram fyrir vélum og það næstu árin.

Daniel Ricciardo fór með sigur af hólmi í Spánarkappakstrinum í Barcelona og virtist ætla stefna til auðvelds sigurs í Mónakó hálfum mánuði seinna. Mistök liðsmanna hans við dekkjaskiptinu kostuðu hann sigur. Greinilega hafði þó Renaultvélinni farið fram að afli og aksturseiginleikum og bilið í Mercedes verið minnkað.

Prost segir að þessar síðustu framfarir í vélinni gætu átt eftir að leiða til þess að Red Bull sæki verulega á og veiti Mercedes harða keppni það sem eftir er vertíðar.

„Þeir gætu veitt þeim keppni, jafnvel harða keppni, tvímælalaust. En vélin á kannski ekki eftir að eflast svo mjög það sem eftir er vertíðar, eitthvað jú,“ segir Prost.

Hann segir að gott gengi Red Bull verði aðeins til að virka hvetjandi á Renaultliðið. Það staðfesti ágæti vélarinnar og gæti leitt til þess að Renaultliðið sjálft yrði samkeppnisfært, sem hann segir það ekki vera sem stendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert