Segir Ricciardo besta ökumanninn

Daniel Ricciardo fagnar ráspólnum í Mónakó.
Daniel Ricciardo fagnar ráspólnum í Mónakó. AFP

Daniel Ricciardo gæti verið besti ökumaður formúlu-1 í dag, að sögn Helmut Marko, eins æðsta stjórnanda Red Bull liðsins.

Ricciardo var eigi alls kostar ánægður með liðsmenn sína eftir síðasta kappakstur, í Mónakó. Höfðu þeir sigur af honum með ótrúlegu klúðri í dekkjastoppi. Daginn áður hafði hann unnið ráspól kappakstursins og hafði byggt upp mikið forskot í kappakstrinum er mistökin áttu sér stað.

Ricciardo kvartaði einnig undan herfræðinni sem lögð var fyrir hann í Spánarkappakstrinum hálfum mánuði fyrr og sagði hana hafa kostað sig einnig sigur. Þar vann liðsfélagi hans Max Verstappen jómfrúarsigur sinn í formúlu-1, en Ricciardo segist myndu hafa komið á undan í mark hefði hann fengið að fylgja sömu herfræði og Verstappen.

„Við höfðum af honum sigur í Mónakó,“ segir Marko við blaðið Auto Bild Motorsport. Hann kveðst því skilja vel öngulyndi ökumannsins eftir kappaksturinn á götum furstadæmisins við Miðjarðarhaf. „Tvisvar var sigur sleginn úr höndum hans. Ég hef tjáð honum það, að hann er að keyra það öflugt um þessar mundir - jafnvel betur en allir aðrir - að það sé aðeins tímaspursmál hvenær hann vinnur sigur,“ bætir Marko við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert