„Engin töfralausn“

Kimi Räikkönen segir vélaruppfærsluna fyrir Montreal til bóta.
Kimi Räikkönen segir vélaruppfærsluna fyrir Montreal til bóta. AFP

Kimi Räikkönen varar við miklum væntingum vegna uppfærslu á vél Ferraribílanna fyrir kappaksturinn í Montreal um helgina. Hér er ekki um „neina töfralausn“ segir hann.

Hin ótilgreinda breyting varðar aflrás Ferrarifáksins og Räikkönen segir að liðið myndi ekki skipta um íhluti í henni nema það teldi sig öruggt um að það leiddi til framfara og afkastabetri bíls.

Ferrari á í fullu fangi með að halda í við topplið Mercedes. Í byrjun vertíðar virtist Ferrari geta gert sér vonir um að minnka bilið í Mercedes enn frekar en frá í fyrra. Ótraust ending vélanna og skortur á hráum krafti hefur háð Ferrari.

Mercedes er sem stendur með 67 stiga forskot í keppni bílsmiða eftir fyrstu sex mót vertíðarinnar. Og aðeins 9 stigum á eftir Ferrari er svo Red Bull sem sótt hefur mikið í sig veðrið með tilkomu nýrrar og mun skilvirkari vélar frá Renault.

„Allur pakkinn hefur batnað og við vinnum í því öllum stundum að gera hann betri. Við þekkjum veikleika okkar en markmiðið er alltaf betri árangur og sigrar. Vélaruppfærslan er til bóta en hversu mikið mun tíminn einn leiða í ljós,“ segir Räikkönen fyrir kappaksturinn í Montreal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert