Lifir fyrir augnablikið

Jenson Button gæti verið áfram hjá McLaren.
Jenson Button gæti verið áfram hjá McLaren. AFP

Jenson Button kveðst ekki vita hvort hann muni vilja halda áfram keppni í formúlu-1 eftir yfirstandandi keppnistíð þótt hann „elski að keppa“ í íþróttinni sem stendur.

Samningur Buttons við McLaren rennur út við vertíðarlok og hann hefur verið orðaður við Williamsliðið, sem brugðist hefur við flugufregnum með því að segjast fremur þurfa nýtt blóð og unga ökumenn til að þróast frekar.

Og dyr standa honum opnar hjá McLaren og gæti Button því allt eins verið áfram liðsfélagi Fernando Alonso á næsta ári sem nú. Almennt er þó talið, að varaökumaðurinn Stoffel Vandoorne taki við stöðu keppnismanns, í stað Buttons.

Rás 5 hjá BBC-útvarpinu spurði Button hvort hann nyti þess enn að keppa í formúlu-1 og hvort hann vildi halda áfram. „Sem stendur elska ég það. Seinni hluta spurningarinnar get ég ekki svarað,“ sagði Button og bætti því við að enn sem komið væri hefði hann ekki hugleitt hvað hann gerir. „Það er alltaf verið að spyrja mig um það, en ég lifi bara fyrir augnablikið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert