Ferrari kastaði frá sér sigri

Lewis Hamilton á heiðursdregli ökumanna rétt fyrir kappaksturinn í Montreal …
Lewis Hamilton á heiðursdregli ökumanna rétt fyrir kappaksturinn í Montreal í dag. AFP

Lewis Hamilton hjá Mercedes var í þessu að vinna kanadíska kappaksturinn í Montreal. Sebastian Vettel náði forystu á fyrstu metrunum en á 12. hring kastaði Ferrari sigri hans frá sér með dekkjastoppi meðan sýndaröryggisbíll  var í brautinni.

Á meðan Vettel þurfti vegna herfræði Ferrari að stoppa tvisvar lét Hamilton eitt dekkjastopp sér nægja og ók til sigurs. Virðist sem Ferrari hafi verið að veðja á að aftur þyrfti að grípa til öryggisbíls í brautinni og hefði sú orðið raunin hefði Vettel staðið betur og líklegast sigrað.

Allt þar til sjö hringir voru eftir ríkti mikil spenna um hvort Vettel drægi Hamilton uppi og endurheimti forystuna. Sú von hans fór í vaskinn á 63. hring af 70 er hann klúðraði bremsun á síðasta beygjuhlekk hringsins og varð að skera hann. Við það tapaði hann miklum tíma og Hamilton slapp nógu langt frá til að landa sigri áhyggjulaust eftir þetta.

Þriðji varð Valtteri Bottas hjá Williams en líkt og Hamilton stoppaði hann aðeins einu sinni. Er þetta í fyrsta sinn sem Williams á mann á verðlaunapalli á árinu.

Fjórði varð Max Verstappen hjá Red Bull, fimmti Nico Rosberg hjá Mercedes, sjötti Kimi Räikkönen hjá Ferrari, sjöundi Daniel Ricciardo hjá Red Bull og áttundi Nico Hülkenberg hjá Force India.

Vettel náði ótrúlegri ræsingu af þriðja rásstað og var á augnabliki kominn fram úr  Hamilton. Rosberg brá einnig betur við og komst fljótt upp að hlið liðsfélaga síns. Þeirri rimmu lauk með því að Hamilton knúði Rosberg útaf brautinni á leið gegnum fyrsta beygjuhlekkinn. Féll sá síðarnefndi við það niður fyrir miðjan hóp en vann sig jafnt og þétt upp á við. Á síðustu hringjunum freistaði hann framúraksturs fram úr Verstappen ungi ökumaðurinn varðist af hörku og gaf engin færi. Komst Rosberg fram úr inn að síðustu beygju á næstsíðasta hring en klúðraði henni og má heppinn teljast að hafa haldið sætinu og getað haldið áfram.

Sigurinn var hinn 45. á ferlinum hjá Hamilton og sá fimmti í Montreal. Með niðurstöðunni minnkaði hann bilið enn í Rosberg í stigakeppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Munar nú aðeins 9 stigum, 116:107 fyrir Rosberg. Í keppni bílsmiða er Mercedes með 233 stig, Ferrari 147 og Red Bull 130.

Í keppni ökumanna lyfti Vettel sér úr fimmta sæti í það þriðja, skaust fram úr Ricciardo og Räikkönen. Er hann með 78 stig, Ricciardo með 72 og Räikkönen 69.  

Nico Rosberg og Lewis Hamilton í návígi í fyrstu beygju …
Nico Rosberg og Lewis Hamilton í návígi í fyrstu beygju eftir ræsingu í Montreal. AFP
Lewis Hamilton fagnar sigri í Montreal.
Lewis Hamilton fagnar sigri í Montreal. AFP
Köflótta flagginu veifað er Lewis Hamilton ekur fyrstur yfir endamarkslínuna …
Köflótta flagginu veifað er Lewis Hamilton ekur fyrstur yfir endamarkslínuna í Montreal. AFP
Ýta þurfti Valtteri Bottas síðustu metrana í lokahöfn að kappakstri …
Ýta þurfti Valtteri Bottas síðustu metrana í lokahöfn að kappakstri loknum. AFP
Lewis Hamilton stekkur upp úr bíl sínum af gleði í …
Lewis Hamilton stekkur upp úr bíl sínum af gleði í Montreal. AFP
Lewis Hamilton með sigurlaunin í Montreal.
Lewis Hamilton með sigurlaunin í Montreal. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert