Hamilton hélt efsta sætinu létt

Kona fær mynd af sér með Kimi Räikkönen á götu …
Kona fær mynd af sér með Kimi Räikkönen á götu úti í Bakú. Þó ekki hinum eina og sanna ökumanni heldur mynd af honum í fullri líkamsstærð. AFP

Lewis Hamilton (1:44,223 mín.) hélt efsta sætinu á lista yfir hröðustu hringi seinni æfingar dagsins í Bakú. Félagi hans Nico Rosberg átti næstbesta tímann (1:44,913) en gat ekki ekið alla æfinguna.

Rosberg neyddist til að leggja bíl sínum í brautarkanti er 20 mínútur voru eftir þar sem gírkassinn festist í fjórða gír.

Sergio Perez hjá Force India (1:35,336) átti þriðja besta tímann og ökumenn með Mercedesvélar í bílum sínum urðu í fimm efstu sætunum. Valtteri Bottas hjá Williams (1:45,764) setti fjórða besta tímann og Nico Hülkenberg hjá Force India (1:45,920) þann fimmta besta.

Í sætum sex til tíu urðu svo Carlos Seins hjá Toro Rosso (1:46,027), Max Verstappen hjá Red Bull (1:46,068), Sebatian Vettel hjá Ferrari (1:46,219), Jenson Button hjá McLaren (1:46,234) og Daniel Ricciardo hjá Red Bull (1:46,293). Var sá síðastnefndi eins og í McLarensamloku því Fernando Alonso átti ellefta besta tímann (1:46,498 mín).

Þetta sýnir að talsverður munur virðist á bílunum en til að mynda er Vettel tveimur sekúndum lengur með hringinn en Hamilton.

Daniel Ricciardo hjá Red Bull á seinni æfingunni í Bakú …
Daniel Ricciardo hjá Red Bull á seinni æfingunni í Bakú en á þeirri fyrri skemmdist bíll hans talsvert er hann skall á öryggisvegg. AFP
Valtteri Bottas hjá Williams á ferð í Bakú í dag.
Valtteri Bottas hjá Williams á ferð í Bakú í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert