Vítið var "heimskulegt"

Kimi Räikkönen á ferð í kappakstrinum í Bakú.
Kimi Räikkönen á ferð í kappakstrinum í Bakú. AFP

Kimi Räikkönen lýsir akstursvíti sínu í Evrópukappakstrinum í Bakú sem "heimskulegri" ákvörðun. Var honum refsað fyrir að aka yfir línuna sem markar upphaf innreinarinnar að bílskúrunum.

Dómarar kappaksturins ákváðu að bæta 5 sekúndum við lokatíma Räikkönens fyrir að aka yfir línuna en þangað rataði hann er hann freistaði þess að græða á kjölsogi Daniel Ricciardo sem var á leið inn í dekkjastopp.

Räikkönen kláraði kappaksturinn í fjórða sæti og hafði refsingin ekki áhrif til lækkunar þar sem Sergio Perez hjá Force India komst fram úr honum á lokahringnum.

"Ég skil regluna um akstur yfir línuna en í mínum kokkabókum er hún heimskuleg," segir Räikkönen, sem auk tímavítis var einnig sviptur tveimur skírteinispunktum. Hefur hann misst fimm slíka. "Maður græðir akkúrat ekkert á þessu, að aka yfir línuna, en því miður var ég víttur."

Räikkönen var einnig svekktur út í eftirlitsdómarana fyrir að brúka ekki nógsamlega bláu flöggin á ökumenn sem orðnir voru hring á eftir. "Takmarkið var að verða fimm sekúndum á undan næstu mönnum, en tvisvar dró ég uppi Sauber og einu sinni Haas-bíl og var fastur fyrir aftan þá í meira en hring og tapaði fyrir bragðið miklum tíma.   Gæinn sem dæmir á mig víti hefði átt að vinna fyrir kaupinu og veifa bláu flöggunum. Ég hafði hraða til að halda bilinu en þetta réði úrslitum," sagði Räikkönen.

Kimi Räikkönen ræðir við blaðamenn eftir kappaksturinn í Bakú.
Kimi Räikkönen ræðir við blaðamenn eftir kappaksturinn í Bakú. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert