Heilmikið vantar á

Fernando Alonso íbygginn á blaðamannafundi í Bakú.
Fernando Alonso íbygginn á blaðamannafundi í Bakú. AFP

Fernando Alonso gerði þær játningar í framhaldi af kappakstrinum í Bakú í Azerbajdzhan, að samstarf Honda og McLaren ætti „langt í land“ með að skila keppnisbíl sem slegist getur um heimsmeistaratitla formúlu-1.

Þrátt fyrir miklar framfarir milli vertíðarinnar í fyrra og þeirrar í ár hvað endingartraust og afkastagetu varðar þá stendur McLarenbíllinn enn talsvert að baki bílum toppliðanna.

McLaren er sem stendur í sjöunda sæti í keppni liðanna en með 66 stigum minna en Williams sem er í fjórða sæti. Þar á undan eru Mercedes, Ferrari og Red Bull.

Spurður af sjónvarpsstöðinni Sky Sports hvort fjórða sætið væri raunhæft takmark fyrir yfirstandandi keppnistíð sagði Alonso: „Það væri of mikil bjartsýni að ætla sér það, miðað við að nokkrar brautanna sem eftir á að keppa á eru hagstæð Williams og Force India. Við getum verið ánægðir og stoltir með framfarirnar undanfarna 12 mánuði en við verðum að vera jarðbundnir. Við vitum að til þess að verða meistarar þurfum við heilmikla bætingu - og þar eigum við langt í land.“

Alonso bætti því við að hann væri jákvæður og bjartsýnn gagnvart næsta ári, 2017 keppnistíðinni, því McLaren-Honda samstarfið stefndi tvímælalaust í rétta átt; aðeins þyrfi að auka hraðann í því ferli. Sagði hann Hondavélina það sem héldi ennþá aftur af liðinu, keppinautarnir hefðu enn sem komið væri úr fleiri hestöflum að spila.

„Við þurfum að brúa þetta bil það sem eftir er keppnistíðarinnar og næsta vetur. Það vonumst við til að geta gert, komið með uppfærslur í vélina og komast nær Mercedes að afli, en það lið býr yfir kraftmestu vélunum,“ sagði Alonso.

Fernando Alonso á leið í heiðurshring ökumanna í Bakú.
Fernando Alonso á leið í heiðurshring ökumanna í Bakú. AFP
Fernando Alonso á McLarenbílnum í Bakú.
Fernando Alonso á McLarenbílnum í Bakú. AFP
Fernando Alonso hjá McLaren á ferð í Bakú.
Fernando Alonso hjá McLaren á ferð í Bakú. AFP
Fernando Alonso á ferð í Bakú.
Fernando Alonso á ferð í Bakú. AFP
Fernando Alonso (t.h.) og Sebastian Vettel slá á létta strengi …
Fernando Alonso (t.h.) og Sebastian Vettel slá á létta strengi á blaðamannafundi í Bakú. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert