Evrópumótum verður fækkað

Bernie Ecclestone fylgist með kappakstrinum í Montreal.
Bernie Ecclestone fylgist með kappakstrinum í Montreal. AFP

Bernie Ecclestone, alráður formúlu-1, staðfestir fregnir þess efnis, að formúlumótum í Evrópu muni fækka um eitt eða tvö, jafnvel þegar á næsta ári, 2017.

Mótaskráin í ár hefur aldrei verið lengri, eða 21 mót. Segir Ecclestone að hún muni styttast aftur á næsta ári, jafnvel ofaní 18 mót. „Það er einmitt það sem mun gerast, eitt eða tvö lönd verða strikuð út, tvímælalaust. Ég get ekki sagt hvaða lönd það eru en ný keppnislönd koma til sögunnar úr öðrum heimshlutum, ekki frá Evrópu,“ segir Ecclestone.

Nú þegar er formúla-1 horfin úr Evrópulöndum sem Frakklandi og Þýskalandi og Ítalía eru í hættu. „Formúla-1 er ekki Evrópumeistaramót, heldur heimsmeistaramót,“ segir Ecclestone.

Nokkur ný ríki hafa komið til skjalanna á undanförnum árum og fengið mót til sín. Úthald þeirra hefur hins vegar  þorrið og keppni lagst aftur fljótt niður. Nýleg dæmi um það eru Tyrkland, Suður-Kórea og Indland.

Spurður hvað nýjar brautir, eins og í Azerbajdzan þyrftu að gera til að hljóta ekki sömu örlög svaraði Ecclestone: „Borga“. Knúinn um svar við því að mörg mótanna væru rekin með tapi bætti hann við: „Það er ekki mér að kenna, ég skipulegg ekki mótin. Það er þeirra mál að draga áhangendur að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert