Rosberg refsað fyrir áreksturinn

Nico Rosberg var óhress með ákvörðun dómaranna.
Nico Rosberg var óhress með ákvörðun dómaranna. AFP

Nico Rosberg segir óbragð vera af niðurstöðu dómara kappakstursins í Austurríki sem kenna honum um árekstur þeirra Lewis Hamiltons í upphafi síðasta hrings.

Refsing hans var að 10 sekúndum var bætt við lokatíma hans en það breytti engu um röðina, hann hélt fjórða sætinu þrátt fyrir það. Dómararnir sögðu Rosberg einan bera ábyrgð á samstuðinu.  Var það niðurstaða þeirra eftir langvarandi fundarhöld um málið.

Rosberg var jafnframt sviptur tveimur skírteinispunktum og áminningu fyrir að hafa ekki stöðvað laskaðan bílinn í brautinni, en hann komst á honum alla leið í mark þrátt fyrir tjónið.

„Dómararnir refsuðu mér þótt það breyti ekki úrslitunum. En þeir skella skuldinni á mig og er óbragð að því. Ég virði ákvörðunina þótt ég sé henni ósammála. Hún er ekki til bóta,“ sagði Rosberg.

Með úrslitunum tókst Hamilton að minnka forskot Rosberg í keppninni um titil ökumanna í 11 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert