Kórónaði helgina með sigri

Lewis Hamilton fagnar sigri í heimakappakstri sinum í Silverstone.
Lewis Hamilton fagnar sigri í heimakappakstri sinum í Silverstone. AFP

Lewis Hamilton var í þessu að vinna breska kappaksturinn við mikinn fögnuð áhorfenda í troðfullum stúkum brautarinnar, sem langflestir voru landar hans. Annar varð liðsfélagi hans Nico Rosberg og þriðji í mark varð Max Verstappen hjá Red Bull.

Hamilton ók hraðast á öllum æfingunum þremur í gær og fyrradag og vann svo slaginn um ráspólinn í tímatökunni í gær. Ók hann svo fremstur alla leið í mark og var aldrei ógnað. 

Rosberg átti mun annasamari dag. Missti hann Verstappen fram úr sér meðan brautirnar voru blautar og millidekk undir bílunum. Vann hann sig fram úr á ný eftir langvarandi og öfluga vörn Verstappen. Hljóp síðan spenna í keppni þeirra síðustu 5-6 hringina vegna bilunar í gírkassa Rosberg sem fólst í því að sjöundi gírinn af átta varð óvirkur.

Vegna rennblautrar brautarinnar hófst keppnin fyrir aftan öryggisbíl sem ók á undan fyrstu fimm hringina. Meðan brautin var síðan að þorna eftir það gerði hver ökumaðurinn af öðrum skyssur og skautuðu út fyrir braut. Aðeins tveir sátu fastir í malargryfjum og komust ekki áfram.

Með sigrinum minnkar Hamilton enn bilið í Rosberg í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna. Munar aðeins fjórum sigum á þeim, Rosberg er með 171 stig en Hamilton 167. Kimi Räikkönen hjá Ferrari er þriðji með 106 stig og fjórði Daniel Ricciardo hjá Red Bull með 100 stig en hann varð fjórði í mark í dag. 

Fyrir  mótið voru þeir Räikkönen og  Sebastian Vettel hjá Ferrari jafnir með 96 stig. Með fimmta sæti í mark sagði Räikkönen skilið við Vettel sem varð aðeins níundi í mark og féll í fimmta sæti í stigakeppninni, er nú með 98 stig.

Með tvöföldum sigri eykur og Mercedes forskot sitt í keppni bílsmiða verulega.   Er með 338 stig gegn 204 stigum Ferrari og 195 stigum Red Bull sem dregur jafnt og þétt á ítalska liðið sögufræga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert