Räikkönen ók hraðast

Kimi Räikkönen í Silverstone.
Kimi Räikkönen í Silverstone. AFP

Kimi Räikkönen hjá Ferrari ók hraðast á seinni degi sérstakra æfingadaga formúluliðanna sem fram fór í Silverstone í Englandi í dag.

Ungi ökumaðurinn Esteban Ocon hjá Mercedes var lengst af degi hraðskreiðastur en Räikkönen skaust upp fyrir hann á lokaklukkutímanum. Ók Ocon manna mest í dag, eins og í gær, eða 139 hringi, sem jafngildir um 750 km.

Räikkönen var 0,547 sekúndum fljótari í förum en Ocon og lagði að baki alls 103 hringi eða tvöfalda keppnisvegalengd. Báðir óku á mýkstu dekkjunum er þeir settu sína bestu hringtíma.

Pierre Gasly hjá Red Bull átti þriðja besta tímann. Ók hann einnig fyrir liðið í gær, en fjórða besta tímann átti svo Nikita Mazepin þróunarökumaður Force India, sem einnig ók báða dagana.

Gazly þykir koma til greina sem keppnisökumaður Red Bull eða Toro Rosso á næsta ári og 
Mazepin, sem keppir í formúlu-3, þykir einnig framtíðarmaður í formúlu-1. Öðlaðist hann svonefnd ofurréttindi með langakstri sínum fyrir Force India í dag og gær.

Stoffel Vandoorne sneri aftur í stjórnklefa McLaren MP4-31 bílsins og setti fimmta besta hringin. Liðsfélagi hans Fernando Alonso ók hraðast í gær.

Valtteri Bottas hjá Williams átti sjötta besta hringinn. Gerði hann ítarlegar prófanir með nýjan afturvæng.

Santino Ferrucci hjá Haas varði morgninum í að æfa dekkjastopp og setti sjöunda besta tímann. Renault prófaði nýjungar í fjöðrunarkerfi bíls síns en Jolyon Palmer reyndist eiga áttunda besta tímann þegar upp var staðið. 

Sergio Sette Camara þreytti frumraun sína í formúlu-1 bíl með Toro Rosso. Hann er aðeins  18 ára og lagði rúmlega keppnislengd að baki og setti níunda besta tímann.

Jordan King, þróunarökumaður Manor, ók öðru sinni við æfingar fyrir liðið og átti tíunda besta hringinn. 

Pirelli sinnti sérstökum prófunum með nýjungar í dekkjaframleiðslu og sinnti Pascal Wehrlein þeim á Mercedesbíl frá í fyrra. Ók hann 124 hringi en átti ellefta og slakasta tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert